Miðvikudagur, 19.8.2009
Uppskera lyfjabyggs eyðilögð
ORF Líftækni hf. hefur síðustu ár undirbúið viðamikla ræktun á erfðabreyttu lyfjabyggi utandyra, í óvarinni náttúrunni. Ýmsir aðilar hafa sett sig upp á móti ræktuninni, þótt umræðan hafi verið af skornum skammti, fjölmiðlar hafi hvergi nærri staðið sig í upplýsingamiðlun á þessu sviði frekar en öðrum og trúlega hafi ekki nema lítill hluti þjóðarinnar fengið tækifæri til þess að átta sig á því hvað umræðan raunverulega snýst um.
Erfðafræðin, sem erfðatæknin óhjákvæmilega byggir á, er afar ung og óþroskuð fræðigrein. Henni hefur fleytt áfram síðustu ár, en viðfangið er svo gríðarlega stórt og viðamikið (á þeim míkró-skala sem það er) að það sem er vitað er ekki nema agnarlítið brot af þeirri þekkingu sem enn bíður uppgötvunar.
Til dæmis þess, var þangað til á allra síðustu árum stór hluti genamengis mannsins flokkaður af erfðafræðingum sem junk-DNA, eða rusl-DNA á íslensku, og ekki talinn þjóna nokkrum tilgangi eða hafa nein áhrif á uppbyggingu lífverunnar. Þannig voru 95-97% allra gena mannsins talin vera rusl, en á undanförnum árum hafa rannsóknir leitt í ljós að líklega hafi allt DNA, eða a.m.k. langsamlega stærstur hluti þess, áhrif af einhverju tagi þótt það feli ekki í sér beinar fyrirskipanir um uppbyggingu próteina. Hvers konar áhrif ruslið hefur er enn ekki þekkt nema að litlum hluta, en vitað er að þau geta t.a.m. falist í virkjun eða letjun annarra gena og þannig virkað sem kveikirofar, og jafnvel verkstjórar yfir próteinaframleiðslunni og þ.a.l. uppbyggingu lífverunnar!
Rannsóknir ORF á mögulegum áhrifum erfðabreyttu lyfjaplantnanna á náttúru, menn og dýr, hafa verið verulega takmarkaðar að öllu leiti og engar rannsóknir hafa farið fram af hlutlausum aðilum, en RALA og Landbúnaðarháskólinn eiga hlut í fyrirtækinu og raunar bróðurpart í heiðrinum af stofnun þess. HÍ hefur enn ekki komið að rannsóknum fyrir þá (opinberlega a.m.k.), en héðan af gætu rannsóknir þeirra ekki einu sinni talist hlutlausar, því í vor var undirritaður samstarfssamningur milli HÍ og ORF m.a. um samnýtingu vinnuafls, rannsóknaraðstöðu og tækja, sem og aðstoð HÍ við markaðsetningu (sölu) líftæknipróteina ORF.
Reynsla annarra landa ásamt hinum ýmsu rannsóknum hafa hinsvegar leitt í ljós að áhrif erfðabreytinga geta oft verið illfyrirsjáanleg, og afleiðingar þeirra verulega alvarlegar. Lágmarkskrafa áður en erfðabreyttum lífverum (ekki síður þeim sem framleiða mannaprótein og -hormón í fræjum og öðrum hlutum sínum) er sleppt í íslenska náttúru hlýtur því að vera sú að áður fari fram rannsóknir á öllum hugsanlegum áhrifum hennar, framkvæmdar í lokuðu og vernduðu rými, af óháðum aðilum. Reyndar uppfylla orðið fæstir sérfróðir innlendir rannsakendur kröfur um hlutleysi, en það voru ORF sjálfir sem komu því svo fyrir, og þess vegna þeirra vandamál að leysa úr, því þótt sameiginlegir hagsmunir eða samstarf þýði ekki nauðsynlega spillingu þá á slíkt a.m.k. ekkert sameiginlegt með hlutleysi, sem er þó ekkert nema eðlileg lágmarkskrafa.
Eitt af skilyrðum ræktunarinnar sem Umhverfisstofnun setti ORF var ítarlegt og virkt eftirlit með ræktuninni, en það sem eyðilegging akursins hefur nú komið upp um er augljós skortur á umræddu eftirliti. Ég veit ekki hversu mikil eða góð áhrif eyðilegging einnar uppskeru mun hafa, en ég vona innilega að það muni opna umræðuna á ný og vekja fleiri til umhugsunar. Hvað sem verður er líklega a.m.k. hægt að treysta því að þetta muni hafa þau áhrif að eftirliti verði héðan af sinnt betur en útlit er fyrir að hafi verið gert fram að þessu.
Fyrri blogg um ORF og ræktun lyfjabyggsins má finna á blogginu mínu hér og hér, en þar er einnig að finna ýmsa linka á síður með frekari upplýsingum um efnið og önnur tengd málefni.
Skemmdarverk unnin á tilraunareit í Gunnarsholti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 8.8.2009
Lögreglan kemur upp um sig
Þetta lýsir bara viðhorfi lögreglunnar til Saving Iceland, umhverfisverndarsinna og annarra mótmælenda. Virðingarleysið er algjört: ásökuð um ofstæki og ofbeldi gegn þeim, með myndband til stuðnings ásakananna, kveður lögreglan þá ekki svara verða!
Af hverju ætti maður að efast um að þeir beri nógu litla virðingu fyrir mótmælendum til þess að berja þá til hlýðni ef þeim sýnist?
Sjá líka tengda færslu hér - Af mönnum og englum
Ásakanir Saving Iceland ekki svara verðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 8.8.2009
Af mönnum og englum
Stórundarlegt þykir mér þegar fólk er tilbúið til þess að verja lögregluna og framgöngu hennar sama hvað á gengur. Þetta sást náttúrlega best í vetur þegar allskonar fólk á öllum aldri, úr langflestum stéttum og þjóðfélagshópum varð fyrir barðinu á lögreglunni, oft fyrir það eitt að mæta til þess að tjá skoðanir sínar með nærveru sinni einni saman. Mótmælendur voru samt sem áður áfram settir undir einn hatt af verndurum og velunnurum lögreglunnar og valdsins, sem ónytjungar, skríll eða þess vegna glæpamenn. Jafnvel amma með læknagráðu sem sakaði lögregluna um óþarflega harkalega framgöngu gagnvart sér var af ýmsum kölluð hinum ótrúlegustu nöfnum.
Margir þeirra sem verja lögregluna með kjafti og klóm fyrir hvers konar ásökunum eða gagnrýni virðast gera það af fullkominni sannfæringu og næstum barnslegri einlægni, jafnvel eftir að sönnunargögn hafa komið fram sem sýna fram á óréttmæti aðgerðanna. Sannfæringu sem er eins og grafin í stein og ekkert virðist geta hnekkt.
Hvað veldur?
Auðvitað geta menn í lögreglunni rétt eins og aðrir menn misst stjórn á skapi sínu og dómsgreind þeirra getur skeikað. Lítið sem ekkert er heldur til að varna því að þeir sem sækjast eftir vandræðum eða völdum sæki um á röngum forsendum og fái inngöngu í lögregluna. Inntökupróf fela ekki í sér persónuleikapróf af neinu tagi og menn með persónuleikabresti og siðblindingjar eiga jafn mikla möguleika á að komast inn og hver annar. Í ljósi þess, hvernig er hægt að ímynda sér að lögreglan og allir menn innan hennar hafi alltaf á öllum stundum rétt fyrir sér?
Hluti þess fólks sem er ávallt reiðubúið til þess að verja störf lögreglunnar viðurkennir þó á tíðum að gengið hafi verið of langt, en notar ofantalið sem afsakanir fyrir atburðunum - Finnst ekkert óeðlilegt við það að lögreglumenn missi stjórn á skapi sínu, eða geri mistök. En krafan til þeirrar stofnunnar sem hefur einkaleyfi á líkamlegu ofbeldi og líkamlegri frelsisskerðingu manna hlýtur að vera að lágmarki sú að skapi starfsmanna hennar skuli haldið í skefjum og að mistök verði litin alvarlegum augum. Rétt eins og bankastjórar verða að geta haldið græðgi sinni í skefjum, verða lögregluþjónar að geta stjórnað skapi sínu, líka í erfiðum eða freistandi aðstæðum.
Ódauðleg trúin á lögguna virðist mér stafa af einhvers konar hræðslu. Hræðslu við sannleikann um gráan skala hversdagsins. Hræðslu við að þessir englar sem hafa staðið vörð um líf okkar og limi frá því þeir kenndu okkur umferðarreglurnar og veittu okkur öryggi í formi endurskinsmerkja, falli ofan af skýjunum og niður á jörðina. Einkennisklæddu verndararnir verða að mönnum, skeikulum og syndugum, klæddum í einstaklega hallærisleg svarblá föt með óþarflega mörgum vösum. Eftir dauða Guðs er nú loks síðasta hálmstráið farið og þú situr eftir nakinn, einn og óstuddur.
Það má vera að ástæðurnar séu aðrar, og jafnvel mismunandi eftir einstaklingum (það er náttúrulega augljóst í tilfelli þeirra sem eiga sér einhvern nákominn innan löggunnar, hverjum finnst sinn fugl fagur), en í það heila finnst mér hræðsla vera eina rökrétta skýring þessarar gífurlegu og algengu sjálfsblekkingar.
Saving Iceland: Rógburður lögreglu og lygar fjölmiðla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.8.2009 kl. 01:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 8.8.2009
Lögregla „varð“ að beita kylfum
Þegar hæst stóð í kvöld varð lögregla að beita kylfum...
Burtséð frá því hvað nákvæmlega átti sér stað, hver er blaðamaður að dæma um það hvort lögregla hafi orðið að beita kylfum? Orðalagið felur í sér dóm sem blaðamaður er að öllum líkindum ófær um að kveða upp, og ef allt væri með felldu og hlutleysi fjölmiðla væri eitthvað í átt við það sem þeir vilja vera láta, þá myndi hvorki blaðamaður leyfa sér slíkt orðalag, né ritstjóri láta það viðgangast.
Hlutleysi í íslenskum fjölmiðlum þýðir nefnilega 'afstaða með valdinu, þangað til löngu eftir að annað kemur í ljós og því verður hreinlega ekki neitað lengur'.
Mótmælendur handteknir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 1.8.2009
Útbreiðsla mbl á rasískum áróðri UTL
Útlendingastofnun hefur lengi notast við ýmsa taktík í áróðri sínum, auk þess að brjóta gegn landslögum og lögbundnum alþjóðalögum og -samningum í sífellu. Fjölmörg eru dæmi þess að yfirmenn UTL hafi komið fram í fjölmiðlum og dreift hróðri um einstaka flóttamenn eða flóttamenn sem heild og minnihlutahóp, t.d. í formi þess að deila með landanum þeim upplýsingum að falsaðir pappírar hafi verið notaðir til flóttans. Reglan er, en ekki undantekningin, að þeir gefi í skyn að notkun falsaðra pappíra geri flóttamenn að glæpamönnum, og gefa því svo undir fótinn að þar muni ekki við sitja - einu sinni glæpamaður, ávallt glæpamaður.
Eins fáránlegt mér þykir að þurfa að taka þetta fram, þá vil ég benda mönnum á að flóttamenn eru að flýja eitthvað, einhverja hættu og oftar en ekki lífshættu. Þeir geta þurft að fela hverjir þeir eru á meðan þeir leita sér öruggs skjóls, og mögulegt er að þeir geti ekki eða þori ekki, vegna hættunnar, að ferðast undir eigin nafni. Í ofanálag er víða utan hins vestræna heims verulega tímafrekt og virkilega erfitt í besta falli, en jafnvel hreinlega ómögulegt, að komast yfir lögleg og alþjóðlega gild ferðaskírteini á friðartímum fyrir hinn almenna borgara eða þegn. Að ímynda sér að alþjóðlega gild ferðaskíteini sé möguleiki fyrir alla á öllum tímum, jafnvel menn á flótta og á stríðstímum, er firra.
Fyrir gildar og góðar ástæður, t.d. þær að ofan, er til verndar flóttamönnum í flóttamannaviðauka Mannréttindasáttmála Evrópu (sem bundinn er í landslög) kveðið á um að ólöglega komu til lands megi ekki nota gegn flóttamanni sem sækir um hæli í landinu. Dyflinnarreglugerðin tekur í sama streng og tekur fyrir að ríki geti notað það gegn flóttamanni notist hann við ólöglega eða falsaða pappíra á flóttanum. Útlendingastofnun hins vegar ákveður að líta á alla þá flóttamenn sem notast við þessi tæki, ólöglega eða falsaða pappíra, sem glæpamenn - allir sekir þar til sakleysi þeirra er sannað! Til þess að dreifa þessum rasísku, fordómafullu og röngu viðhorfum til almennings brjóta þeir þó sjálfir lög, t.d. um trúnað við skjólstæðinga sína, auk þess að brjóta gegn mannréttindum þeirra.
Við því er þó að búast af UTL, sem annars var sett á fót og stjórnað af manni lærðum í Þýskalandi seinni heimstyrjaldar - manni menntuðum af nasistum. En að fjölmiðlar skuli ekki aðeins bregðast hlutverki sínu og miðla í engu til okkar upplýsingum um lögbrot og glæpi UTL, heldur starfi sem sendiboðar áróðurs þessarar óforskömmuðu stofnunnar, vekur ugg og viðbjóð og er með öllu ólíðandi.
-----
P.S. Fjölmiðlar landsins hafa lengi veigrað sér við gagnrýnum spurningum þegar valdið á í hlut og fela sig á bak við eitthvað sem þeir kalla hlutleysi, en því ber ekki að rugla saman við hugtakið hlutleysi eins og það er notað er í almennu tali. Hlutleysi fjölmiðla felst oftar en ekki í því að hafa óspurt eftir upplýsingar frá PR fulltrúum þeirrar valdastofnunnar eða fyrirtækis sem á í hlut, þó á stundum fái einhver málinu viðkomandi eða fræðimaður að spreyta sig á því að hrekja það sem þegar hefur verið haft fyrir satt. Hlutleysi fjölmiðla merkir þannig í raun hlutlægni, eða eindregin afstaða með þeim valdamesta sem á í hlut.
Með stolið vegabréf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 28.7.2009
Örþreyttir vegna yfirvinnu
Ok, amm... finndu fimm villur:
Lögreglumenn sem enn halda vinnu eru örþreyttir vegna of mikillar vinnu. Góðum slatta af fólki sem vill starfa sem lögreglumenn og hafa reynslu af því hefur verið sagt upp störfum vegna fjárskorts. Yfirvinnustundir kosta hver um sig meira en almennar vinnustundir og því er hægt að fá fleiri vinnustundir með því að lágmarka yfirvinnu. Ergo, fleira fólk gæti unnið meiri vinnu betur án aukinna útgjalda og enginn þyrfti að örmagnast.
Hver stjórnar þessari stofnun? Er það ekki á hans/hennar ábyrgð að hafa rekið allt þetta fólk og þurfa núna að níðast á starfsfólki sínu auk þess að borga óþarflega hátt gjald fyrir óþarflega skerta þjónustu?
Hvernig væri að spara fjármagn með því að láta þann sem ber ábyrgð á þessari sérlega heimskulegu ákvörðun fjúka - og vona að hann/hún sé sama manneskjan og hefur séð um forgangsröðun verkefna hjá lögreglunni undanfarin ár!
Lögreglumenn örþreyttir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 2.7.2009
Rauð skilaboð
Ég held að það sé nú varla þörf á því að skrifa skilaboðin á vegginn, þau eru öllum skýr og þessi "fréttaflutningur" mbl kallast ekki hlutleysi heldur í besta falli heimska. Líklega eiga þó betur við hugtökin FLokkshollusta og þöggun.
Í fréttinni segir þó að skv. lögreglu sé þetta ekki í fyrsta skiptið sem þetta er gert, en ég hef einmitt velt því fyrir mér hvernig hús og eigur þessara manna geta fengið að standa ósnert. Kannski er það alls ekki svo, vanhæfir fjölmiðlar þessa lands hafa bara engu miðlað um það til okkar.
Málningu skvett á hús auðmanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.7.2009 kl. 08:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 24.6.2009
Ég er ekki rasisti, en...
Það væri óskandi að gengið væri úr skugga um að hver sem hlýtur stöðuna hafi ekki rasískar tilhneigingar, þó ég efist verulega um að slíkt hið sama verði gert. Á Íslandi þykir rasismi ekkert tiltökumál, svo lengi sem látið er fylgja forskeytið "ég er ekki rasisti, en..."
Fjórir sóttu um Útlendingastofnun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.7.2009 kl. 08:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 23.6.2009
Ströng skilyrði
Ótrúlegt að vera að setja þessari ræktun lyfjabyggs skilyrði, hvað gæti annars gerst? Það er ekki eins og Íslendingum hafi áður mistekist að halda lífverum innan marka - nema þá kannski minknum, jú og lúpínunni, og kannski nokkrum öðrum. Í kreppunni verður að nýta öll tækifæri, og þó einhverjir möguleikar séu á að náttúran hljóti skaða í ófyrirséðri framtíð þá verður bara að hafa það, eða hvað varðar okkur sem lifum í dag um hvað verður seinna? Komandi kynslóðir verða bara að finna sér nýjar leiðir til þess að framfleyta sér ef náttúran ræður ekki við að halda okkur í skefjum! Ef fyrirtækið segist geta grætt á þessu þá á það að ráða för, ekki einhver óskilgreind krafa um endalausar rannsóknir og varúð.
Leyfi veitt til ræktunar á erfðabreyttu byggi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 23.6.2009
...en fjölmiðlar ekki
Mbl eru samir við sig og leggjast á eitt með valdinu til þess að reyna að gera mótmælendur tortryggilega, jafnvel mótmælendur í Íran. Lélegur fréttaflutningur einkennir textann í heild og bæði nafnanna sem fram koma í honum taka breytingum þegar líður á hann.
Ég mæli með þessu fyrir fólk sem raunverulega hefur áhuga á því að komast nær um hvað er í gangi í Íran, og hvernig ástandið þar er.
Sagan af Nedu tekur breytingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |