Af mönnum og englum

Stórundarlegt þykir mér þegar fólk er tilbúið til þess að verja lögregluna og framgöngu hennar sama hvað á gengur. Þetta sást náttúrlega best í vetur þegar allskonar fólk á öllum aldri, úr langflestum stéttum og þjóðfélagshópum varð fyrir barðinu á lögreglunni, oft fyrir það eitt að mæta til þess að tjá skoðanir sínar með nærveru sinni einni saman. Mótmælendur voru samt sem áður áfram settir undir einn hatt af verndurum og velunnurum lögreglunnar og valdsins, sem ónytjungar, skríll eða þess vegna glæpamenn. Jafnvel amma með læknagráðu sem sakaði lögregluna um óþarflega harkalega framgöngu gagnvart sér var af ýmsum kölluð hinum ótrúlegustu nöfnum.

Margir þeirra sem verja lögregluna með kjafti og klóm fyrir hvers konar ásökunum eða gagnrýni virðast gera það af fullkominni sannfæringu og næstum barnslegri einlægni, jafnvel eftir að sönnunargögn hafa komið fram sem sýna fram á óréttmæti aðgerðanna. Sannfæringu sem er eins og grafin í stein og ekkert virðist geta hnekkt.

Hvað veldur?

Auðvitað geta menn í lögreglunni rétt eins og aðrir menn misst stjórn á skapi sínu og dómsgreind þeirra getur skeikað. Lítið sem ekkert er heldur til að varna því að þeir sem sækjast eftir vandræðum eða völdum sæki um á röngum forsendum og fái inngöngu í lögregluna. Inntökupróf fela ekki í sér persónuleikapróf af neinu tagi og menn með persónuleikabresti og siðblindingjar eiga jafn mikla möguleika á að komast inn og hver annar. Í ljósi þess, hvernig er hægt að ímynda sér að lögreglan og allir menn innan hennar hafi alltaf á öllum stundum rétt fyrir sér?

Hluti þess fólks sem er ávallt reiðubúið til þess að verja störf lögreglunnar viðurkennir þó á tíðum að gengið hafi verið of langt, en notar ofantalið sem afsakanir fyrir atburðunum - Finnst ekkert óeðlilegt við það að lögreglumenn missi stjórn á skapi sínu, eða geri mistök. En krafan til þeirrar stofnunnar sem hefur einkaleyfi á líkamlegu ofbeldi og líkamlegri frelsisskerðingu manna hlýtur að vera að lágmarki sú að skapi starfsmanna hennar skuli haldið í skefjum og að mistök verði litin alvarlegum augum. Rétt eins og bankastjórar verða að geta haldið græðgi sinni í skefjum, verða lögregluþjónar að geta stjórnað skapi sínu, líka í erfiðum eða freistandi aðstæðum.

Ódauðleg trúin á lögguna virðist mér stafa af einhvers konar hræðslu. Hræðslu við sannleikann um gráan skala hversdagsins. Hræðslu við að þessir englar sem hafa staðið vörð um líf okkar og limi frá því þeir kenndu okkur umferðarreglurnar og veittu okkur öryggi í formi endurskinsmerkja, falli ofan af skýjunum og niður á jörðina. Einkennisklæddu verndararnir verða að mönnum, skeikulum og syndugum, klæddum í einstaklega hallærisleg svarblá föt með óþarflega mörgum vösum. Eftir dauða Guðs er nú loks síðasta hálmstráið farið og þú situr eftir nakinn, einn og óstuddur.

Það má vera að ástæðurnar séu aðrar, og jafnvel mismunandi eftir einstaklingum (það er náttúrulega augljóst í tilfelli þeirra sem eiga sér einhvern nákominn innan löggunnar, hverjum finnst sinn fugl fagur), en í það heila finnst mér hræðsla vera eina rökrétta skýring þessarar gífurlegu og algengu sjálfsblekkingar.

 


mbl.is Saving Iceland: Rógburður lögreglu og lygar fjölmiðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er engin sjálfsblekking. Þetta er einfalt skoðaðu myndbandið betur. Fullkomnlega eðlileg vinnubrögð. Valdbeiting lítur alltaf illa út, svo einfalt er það.

Konan streittist á móti eins og hún gat þegar lögreglumaðurinn ætlaði að handtaka hana. Hún reyndi að slá lögreglumanninn í andlitið og þá snéri lögreglumaðurinn konuna niður til þess að koma í veg fyrir að hún myndi slá hann aftur..einfalt mál.

Hann hélt henni niðri, þrýsti höfði hennar niður og setti hné á bak hennar til þess að halda henni niðri svo hann gæti sett hana í handjárn. Hann var einn. Hefur þú reynt að fella manneskju niður í jörðina og haldið henni niðri á meðan hún reynir að komast undan þér? Settu þig í spor lögreglumannsins. Það eru tvær hliðar á öllum málum.

Mér sýndist hann ekki missa stjórn á sér. Missa lögreglumenn alltaf stjórn á sér þegar þeir þurfa að handtaka fólk sem streitist á móti?? 

Auðvitað er lögreglan ekki fullkomin og aðferðir hennar í hvert sinn en þarna tel ég að lögreglumaðurinn hafi ekkert rangt gert. Hann vann vinnu sína við erfiðar aðstæður.

Djúpar pælingar hjá þér. Ertu að segja að þeir sem verji vinnubrögð lögreglunnar séu húsbóndahræddar hríslur sem ekki þora að horfast á við gráan skala hversdagsins.? Getur átt við um einhverja en tel að það sé ekki skýringin. Þetta er augljóst mál að handtakan var eðlileg, myndbandið sýnir það. 

Gunnar (IP-tala skráð) 8.8.2009 kl. 22:48

2 Smámynd: jórunn

Gunnar, ég er reyndar ekki sannfærð um að þú hafir rétt fyrir þér um að vinnubrögðin í þessu tilviki hafi verið eðlileg, en þessi texti er ekki um þetta afmarkaða atvik, svo það gildir einu hvort að í þessu tilfelli hafi lögreglumaðurinn farið eftir leikreglunum. Þú spyrð hvort lögreglumenn missi alltaf stjórn á sér þegar fólk veitir mótspyrnu við handtökur, en ég hef engu slíku haldið fram. Fyrir utan að samræðan yrði skemmtilegri þá það væri þínu máli betur til stuðnings ef þú leggðir mér ekki orð í munn heldur settir fram rök gegn því sem ég raunverulega segi.

Til útskýringar er það sem ég er að segja það, að mér virðist (staðhæfi ekki, heldur velti upp) sem möguleg ástæða þess að sumir eru tilbúnir til þess að taka upp málstað lögreglunnar án þess að þekkja málavexti, eða jafnvel eftir að hafa fengið góða ástæðu til þess að trúa því að hin hlið málsins eigi við rök að styðjast, sé hræðsla við að sú vernd sem þeir sjái í formi lögreglu sé ekki eins algjör og þeir hafa haldið og ekki eins óbrigðul þeim líður betur með að trúa...

jórunn, 9.8.2009 kl. 00:08

3 Smámynd: Þorri Almennings Forni Loftski

Góð greining

Þorri Almennings Forni Loftski, 9.8.2009 kl. 00:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband