ORF sleppir erfðabreyttum lyfjaplöntum í íslenska náttúru

ORF Líftækni hf. (ORF Genetics Ltd.) hefur verið með leyfi til ræktunar erfðabreyttra lyfjaplantna á allt að 10 hektara svæði (100.000 m2) í sjálfu landbúnaðarhéraðinu frá árinu 2003, n.t.t. á jörð Landgræðslu Ríkisins í Gunnarsholti á Rangárvöllum, þó enn sem komið er hafi ræktunin farið fram á mun minna svæði. Þegar þetta leyfi var gefið út af Umhverfisstofnun höfðu litlar sem engar rannsóknir verið gerðar á áhrifum lyfjaplantnanna á vistkerfið eða lífverur innan þess, en þeir aðilar sem ættu að hafa eftirlit s.s. Landbúnaðarháskólinn (LBHÍ) og Rannsóknarstofnun landbúnaðarins (RALA) eiga ekki aðeins hlut í fyrirtækinu, heldur spratt hugmyndin þaðan og varð að veruleika vegna þeirra.

Golden Promise (GP) er heiti byggsins sem upphaflega varð fyrir valinu til þess að geta af sér hinar ýmsu markaðsvörur ORF, en skv. Einari Mäntylä, yfirmanni hugverkasviðs og meðstofnanda ORF líftækni hf. hefur nú verið hönnuð dökklituð gerð af GP sem aðstandendur kalla Dimmu. Dimma og fræ hennar eru betur aðgreinanleg frá öðru byggi en til stendur að gera rannsóknir á því hvort Dimma haldi öðrum eiginleikum Golden Promise, s.s. þoli í íslenskri náttúru, þrátt fyrir erfðabreytinguna sem veldur hinum dekkri lit - splæsingu litagensins inn í DNA kóða plöntunnar. Erfðabreytingar geta nefnilega haft í för með sér ófyrirsjáanlegar afleiðingar, og eitt aðkomugen getur raskað allri heildinni - valdið einhverju allt öðru eða breytt miklu fleiri eiginleikum en ætlunin var.

Afurðirnar, sérvirku próteinin, sem ORF hyggst rækta í byggplöntum verða ekki framleiddar án aðstoðar lífvera, en hingað til hafa verið nýttar til þess bakteríur, gersveppir eða dýrafrumur og framleiðslan farið fram í verksmiðjum. Sú aðferð sem ORF hefur verið að gera tilraunir með felst í því að splæsa geni inn í DNA kóða byggyrkisins, áður Golden Promise og nú Dimmu, sem veldur því að plantan framleiðir í fræjum sínum það sérvirka prótein sem óskað er eftir hverju sinni. Sérvirk prótein geta verið af ýmsum toga, en þekktust meðal þeirra eru hinar ýmsu tegundir hormóna og önnur prótein sem þjóna svipuðum tilgangi og hormón. Þau sérvirku prótein sem ORF hefur þegar fengið leyfi til útiræktunar á kallast vaxtarþættir, en það er stór og fjölbreyttur flokkur efna sem valda breytingu á starfsemi fruma, sum þeirra sérhæfðri en önnur almennri. Ýmis virk prótein, sterar og annars konar hormón, t.d. Hgh (Human growth hormone) flokkast sem vaxtarþættir.

Nú stendur til að endurnýja leyfi Umhverfisstofnunnar til ORF líftækni hf. um ræktun lyfjabyggs í landi Landgræðslunnar í Gunnarsholti, þó enn hafi stjórnvöld enga kröfu gert um rannsóknir á umhverfisáhrifum genabreyttu lífverunnar eða lyfjanna sem plantan framleiðir, svo möguleikinn á áhrifum lyfjaplantnanna á vistkerfi, dýr og menn stendur eftir sem áður opinn. Einu kröfurnar sem gerðar eru til ORF líftækni hf. um varúð virðast reyndar koma frá Evrópusambandinu, en jafnvel Umhverfisstofnun virðist hafa lagst á eitt með sprotafyrirtækinu um að koma hugmyndinni í verð og lítur undan þegar ORF lýgur til um umfang ræktunarinnar og tilgang hennar í skýrslu sinni til ESB.

RALA framkvæmdi reyndar rannsóknir fyrir ORF á árunum 2001-2005, en þær stuðluðu að því að finna lyfjabygginu ákjósanlegt ræktarland, auk þess sem sumrin 2003 og 2004 fór fram rannsókn á dreifingu og möguleika víxlfrjóvgunar og þ.a.l. kynblöndunar Golden Promise yrkisins við aðra tegund. Eins og ljóst er þótti Gunnarsholt góður staður til framleiðslu lyfjabyggsins, en í sömu skýrslu kemst RALA að þeirri niðurstöðu, byggt á fyrrnefndri rannsókn, að víxlfrjóvgun GP við aðrar tegundir sé með öllu ómöguleg og að annars konar dreifing sé illmöguleg. Þó fjúka nokkur fræ yfir 20 metra í hvassviðri, og mýs og gæsir éta stóran hluta af einum reitnum. Mannleg mistök urðu til þess að annar reitanna var ómarktækur í uppgjöri.

Bygg er almennt sjálffrjóvga planta, sem þýðir að möguleikar á víxlfrjóvgun við aðrar tegundir eða byggyrki eru litlir, en óháðir sérfræðingar benda á að tvö sumur, eða rúmt ár, sé afar takmarkaður tími þegar náttúran á í hlut og telja þeir ómögulegt að fullyrða nokkuð um dreifingu eða möguleika víxlfrjóvgunar byggt á svo takmarkaðri rannsókn. Ennfremur sé dreifing plöntunnar langt frá því að vera eina hættan þegar rækta á hormón og önnur sérvirk prótein í erfðabreyttum matvælum á opnu svæði í náttúrunni. Þá hefur reynsla umheimsins hingað til af ræktun lyfjamatvæla í engu hrakið gagnrýnisraddir heldur aðeins gefið okkur enn frekari ástæðu til þess að óttast slíka ræktun í óvarinni náttúrunni, og í ljós hefur komið að jafnvel þegar allrar varúðar er gætt og öllum rannsóknum og eftirliti er sinnt, verður mönnum á og slys af völdum mannlegra mistaka virðast lítið annað en tímaspursmál.

Möguleg vensl gena og genamengja eru fleiri talsins en öll atóm alheimsins. Tæmandi vitneskja um erfðafræði er því ekki í sjónmáli, og trúlegast er að líkindafræði verði ávallt látin fylla upp í stór göt vísindalegrar vitneskju þegar erfðafræðin er annars vegar. Auk þess er erfðafræðin ung fræðigrein og þrátt fyrir gríðarlegar framfarir er krefjandi spurningum ósvarað. Þegar þessi ungu fræði eru síðan sett í stærra samhengi og þau tengd síbreytilegri náttúrunni er vitneskja mannsins hreinlega hverfandi. Ástæða þess að ORF vilja rækta lyfjabyggið úti við er einungis til þess að spara við sig kostnað, og enn og aftur er verið að setja allan almenning í ábyrgð fyrir fjárhættuspilara, nema í þetta skiptið er miklu meira í húfi en bara peningar. Allur landbúnaður, íslensk náttúra, heilsa manna og dýra og jafnvel drykkjarvatnið okkar er sett að veði, að okkur forspurðum.

 

___________

 


Undirskriftarlisti gegn leyfinu

Facebook síða gegn erfðabreyttum matvælum og lyfjaplöntum

Skýrsla um rannsóknir RALA fyrir ORF Líftækni hf. (pdf)

Tilkynning ORF Líftækni hf. til UST um sleppingu erfðabreytts lyfjabyggs (pdf)

Óháður vefur um erfðabreyttar lyfjaplöntur

Álit Ráðgjafarnefndar um erfðabreyttar lífverur, sjá tvö sérálit

Umsagnarálit Kristínar Völu Ragnarsdóttur, forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ

 

 


mbl.is Ætlar að rækta erfðabreytt bygg á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: jórunn

Hér er að auki hægt að lesa athugasemdir Neytendasamtakanna um leyfisveitinguna þar sem segir meðal annars:

"Þingið bendir á að erfðatækni er mjög umdeild og kann að hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir erfðamengi lífveranna og getur þess vegna verið áhættusöm. Jafnframt vekur þingið athygli á niðurstöðum óháðra rannsókna á umhverfi, dýrum og mönnum sem nýlega hafa verið kynntar hér á landi og benda til skaðvænlegra áhrifa erfðabreyttra afurða á lífríki og heilsufar.

Þingið lýsir þungum áhyggjum af andvaraleysi stjórnvalda á þessu sviði, skorti á lagareglum um erfðabreyttar lífverur og merkingar erfðabreyttra afurða, innflutningi ómerktra erfðabreyttra matvæla og fóðurs, framleiðslu búfjárafurða með notkun erfðabreytts fóðurs og veitingu heimilda til útiræktunar á erfðabreyttu lyfjabyggi í íslenskri náttúru. Einnig skortir á aðkomu almannasamtaka að stefnumótun."

jórunn, 29.5.2009 kl. 04:00

2 identicon

Sæl Jórunn.

Mig langar að vita hvernig þú getur haldið því fram að heimasíðan www.erfdabreytt.net sé óháð þar sem að henni standa eru yfirlýstir andstæðingar erfðatækni og erfðabreytinga auk þess sem síðan sýnir eingöngu aðra hlið málsins. Hvergi kemur fram hvort tilvitnanir á síðunni koma úr ritrýndum greinum eða ekki. Þeir aðilar sem standa að síðunni eru m.a. lífrænir ræktendur og lífræn vottunarstofa. Enda hvetur síðan fólk til að kaupa lífræna ræktun og þannig versla við höfunda hennar. Mjög óháð!

Þú vitnar í sérálit Gunnars Á. Gunnarssonar í Ráðgjafanefndinni en minnist ekki á tengsl hans við erfdabreytt.net og vottunarstofuna Tún og lætur líta út fyrir að um óskylda aðila sé að ræða. Einnig minnist þú ekkert á að meirihlutaálitið er fyrir hönd 7 af færustu vísindamönnum Íslands á sviði erfðafræði, náttúrufræði, umhverfisfræði ofl.

Einnig eru Neytendasamtökin á bak við síðuna en þú minnist ekkert á þau tengsl þegar þú vitnar í athugasemdir formannst samtakanna.

Og þú talar alltaf um lyfjabygg þó að þú vitar örugglega mætavel að ekki er verið að sækja um leyfi til útiræktunar á plöntum til lyfjaþróunar eða lyfjaframleiðslu.

Hvers vegna talar þú um lyfjabygg? Er það til að hræða fólk?

Karma (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 11:41

3 Smámynd: jórunn

Karma, þakka þér fyrir athugasemdirnar og ég skal reyna að svar þér eins ítarlega og ég mögulega get, því ég vil ekkert annað eða meira en að allar viðriðnar upplýsingar komi fram, og ef ég hef ekki tekið eitthvað fram þá hef ég samt ekki verið að halda þeim upplýsingum frá fólki, heldur fundist þær minna mikilvægar, enda einhvers staðar verður maður að stoppa :)

Í fyrsta lagi þá er það sem um ræðir lyfjabygg, og þess vegna kalla ég það því nafni. Ræktun ORF á bygginu er ekki matvælaræktun, heldur einmitt lyfjaframleiðsla (og það er yfirlýst markmið ræktunarinnar). Tæknin sem þeir notast við felst í því í grófum dráttum að splæsa geni sem tjáir sérvirk prótein inn í DNA keðju byggplöntunnar. Þetta þýðir að þegar byggplantan þroskast myndar hún þessi sérvirku prótein, sem eiga skv. ORF aðeins að vera í fræjunum en komið hefur fram að þau finnist einnig í öðrum hlutum plöntunnar. Þau sérvirku prótein sem ORF framleiðir í bygginu sem þeir hyggjast rækta utandyra eru vaxtarþættir af fjórum gerðum, en ég þekki ekki hvaða fjórir þættir þetta eru. Vaxtarþættir er stór flokkur efna sem mannslíkaminn framleiðir náttúrulega en í afar litlu magni, en almennt valda þeir breytingu á starfsemi fruma og flokkunin nær yfir ýmis (manna-) hormón, stera og efni sem virka líkt og hormón. 

Þegar ég tala um óháð, t.a.m. í samhengi við erfðabreytt.net, á ég við að enginn hagsmunaaðili á öfugum meiði, og enginn aðili sem eigi hagsmuna að gæta sem ganga eða gætu gengið í berhögg við hagsmuni okkar almennings sem neytendur standi að henni. Neytendasamtökin tel ég að hafi hag okkar neytenda fyrir brjósti fremur en fyrirtækin sem við verslum við. Eftir því sem ég best veit hefur Gunnar Á. Gunnarsson engra hagsmuna að gæta sem eru ekki sameiginlegir hagsmunum almennings. Hann talar fyrir ágæti lífræns iðnaðs því hann hefur trú á kostum hans og ágæti, en góð matvæli eru hagsmunir alls almennings. Þannig get ég ekki samþykkt að hans sjónarmið séu ekki fullgild. 

Aðra sögu er að segja um alla þá sem koma að ORF, starfsmenn og hluthafa, því þeir eiga einkahagsmuna að gæta, mögulega á öndverðum meiði við almenning, sem krefjast þess að þessi ræktun eigi sér stað.

Í sambandi okkar við náttúruna er almennt samþykkt í Evrópu að svokölluð varrúðarregla sé höfð að leiðarljósi, og að sé vafi til staðar fái náttúran að njóta hans. Í þessu tilviki er um fjöldann allan af óvissuþáttum að ræða og að mínu mati er óásættalegt að náttúran (og allt sem hún snertir) sé sett að veði fyrir slíkt fjárhættuspil sem þetta virðist vera.

Bestu kveðjur,

 - Jórunn

P.S. Endilega kynntu þér heimasíðu ORF, hér eru upplýsingar þeirra um einn vaxtarþáttanna sem þeir framleiða, og hér má finna einhverjar upplýsingar um tæknina

jórunn, 29.5.2009 kl. 23:29

4 identicon

Jórunn. 

Orðið lyfjabygg hlýtur samt að vera hræðsluorð því að útilokað er að plöntur sem framleiða efni til lyfjavinnslu verði ræktaðar úti. Öll vottun um GMP framleiðslu (sem nauðsynlegt er að hafa til að fá að framleiða efni fyrir lyf) snýst um stýrt framleiðsluferli sem einungis er hægt að ná fram í inniræktun. Þess vegna er útilokað að "lyfjaplöntur" verði ræktaðar utandyra hér á landi. Þú bætir nú betur um og talar um "lyfjamatvæli".

Þú segir að þessi efni séu "framleidd vegna nytsemi þeirra sem lyfja." Það er rétt að í einhverju tilfellum sé hægt að vinna lyf úr vaxtarþáttum. En þú minnist ekkert á það að lyfjaframleiðsla er lang minnsti notandi þessara efna. Þau eru notuð í gríðarlegu magni og stöðugt aukandi í læknisfræðilegar rannsóknir, sérstaklega stofnfrumurannsóknir og tengdar rannsóknir.

Þú minnist bara á lyf en ekkert á það að langstærsta notkun þessara efna er allt annað en lyf. Það finnst mér hljóma eins og þú viljir bara að fólk viti um eina mögulega notkun vaxtarþátta sem þú telur greinilega slæma.

Frá mér hljómar þetta eins og að kalla vatn "lyfjavökva".

Einnig get ég hvergi séð að lyfjaframleiðsla "sé opinbert og yfirlýst markmið ræktunarinnar." Ég geri ráð fyrir að þú sért að tala um útiræktunina þar sem málið snýst um hana. Ég get ekki lesið neitt úr umsókn ORF annað en tilgangurinn snúist um ræktun byggs í tilraunaskyni og vöruþróunnar. Ef fyrirtækið fer út fyrir ramma umsóknarinnar hlýtur það einfaldlega að vera svipt leyfinu, er það ekki?

Þú segir að Gunnar Á Gunnarsson eigi engra hagsmuna að gæta, hann sé einungis að tala fyrir lífrænni ræktun. Þú talar ekkert um það að Gunnar hefur hvatt til þess að Ísland lýsi yfir að landið sé GMO-free þ.e. hér verði erfðabreyttar lífverur bannaðar í einu og öllu. Það gerir hann m.a. vegna þess að lífræni iðnaðurinn telur sig geta markaðsett sig betur þannig. Gunnar fær tekjur sínar í gegnum lífræna ræktendur þannig að hann hefur beina fjárhagslega hagsmuni í þessu máli.

Einnig hefur Gunnar verið yfirlýstur andstæðingur ORF um árabil og mótmælt harðlega þegar fyrirtækið fékk áður leyfi til útiræktunar, það er því ekki mjög faglegt yfirhöfuð af umhverfisráðherra að skipa mann í ráðgjafanefnd sem þú veist hver staða hans er til málsins sem verið er að fjalla um áður en hann fær það til umfjöllunnar.

Kv.Karma

Karma (IP-tala skráð) 2.6.2009 kl. 12:00

5 Smámynd: jórunn

Ok, Karma

Það er greinilegt að þú ert innanbúðarmaður/kona hjá ORF - af hverju tekur þú það ekki fram?

Þú talar aftur og aftur í mótsögn við sjálfa/n þig og þinn eini tilgangur virðist vera að villa um fyrir fólki - þú segir: "útilokað er að plöntur sem framleiða efni til lyfjavinnslu verði ræktaðar úti" en í næstu andrá: "En þú minnist ekkert á það að lyfjaframleiðsla er lang minnsti notandi þessara efna." - það skiptir engu máli hvaða iðnaður notar lyfin mest - þau eru eftir sem áður lyf! Framleiðsla vaxtarþátta er framleiðsla lyfja, og ORF ætlar að framleiða þá úti í opinni náttúru í Gunnarsholti.

Ef orðin lyfjamatvæli og lyfjabygg hræða þá þýðir það bara að sannleikurinn hræðir. Vaxtarþættir eru breiður flokkur lífvirkra efna sem haga sér líkt og hormón (þess fyrir utan flokkast sumir þeirra beinlínis sem hormón). Sama til hvers ORF nákvæmlega eða fyrirtæki sem eiga við ykkur viðskipti ætla að nýta hormónin/vaxtarþættina þá flokkast hormón og vaxtarþættir almennt sem lyf. Ég myndi segja hormónaplöntur eða eitthvað slíkt ef ég væri aðeins að reyna að sjokkera fólk, en þar sem það er í strangasta skilningi ekki rétt um alla framleiðsluna þá nota ég orðið lyfjaplöntur. Erfðabreytt bygg er hinsvegar bæði villandi og illa upplýsandi fyrir þá sem ekki vita að það sem um ræðir er ekki framleiðsla erfðabreyttra matvæla, heldur erfðabreyttar byggplöntur nýttar til lyfjaframleiðslu (og það gildir einu hvort vaxtarþættir og hormón séu einnig nýtt til annarrar notkunar - þetta eru lyf).

Úr orðabók:

"Growth factors: Any of a group of biologically active poly-peptides which function as hormonelike regulatory signals, controlling the growth and differentiation of responsive cells. Indeed, the distinction between growth factors and hormones is frequently arbitrary and stems more from the manner of their discovery than from a clear difference in function." (leturbreytingar mínar)

Ég er ekkert að mæla á móti framleiðslu þessara virku prótína, cytokína, vaxtarþátta og hormóna, en alveg sama til hvers þau eru á endanum notuð og hvernig sem framleiðsla þeirra fer fram, ættu skilyrðin um öryggi framleiðslunnar (og þá meina ég öryggi gagnvart náttúru og mönnum, ekki aðeins öryggi afurðarinnar, en það er hið eina öryggi sem þið ORF menn státið ykkur af) að vera nákvæmlega þau sömu.

Ef þið hjá ORF vilduð allt upp á borðið og eðlilegum öryggiskröfum hefði verið mætt, þá þyrfti ekki fólk eins og þig á launaskrá til þess að villa um fyrir fólki. Þá gæti einn prófessoranna sinnt hlutverki upplýsingafulltrúa og raunverulega upplýst fólk. Ef þið hefðuð á reiðum höndum svör við raunverulegum áhyggjum fólks þyrftuð þið ekki að standa í því að reyna að skíta yfir fólk sem hefur ekkert til þess unnið (eins og þú og fleiri hjá ORF hafið reynt að gera við Gunnar Á. Gunnarsson, og þú heldur áfram hér að ofan þó ég hafi rétt bent á sérálit hans fyrir ráðgjafanefndina - Að það sé ráðist á hann sem persónu af svo miklu afli gefur til kynna að hans málflutningur sé sterkur gegn ORF, og ég ætla nú að kynna mér hans málflutning betur!)

Þess er skemmst að minnast að þetta eru sömu vinnubrögð og höfð voru uppi um allt í tengslum við Kárahnjúkavirkjun. Reynt var að gera fræðimenn sem lýstu yfir áhyggjum af verklagi í tengslum við rannsóknir og byggingu Kárahnjúkavirkjunar og orð þeirra ómerk, og þeir sem að virkjuninni stóðu hlógu í kór að hverjum sem reyndi að benda á möguleg áhyggjuefni. Þegar í ljós kom að margar af þessum athugasemdum frá þessu hlægilega og ómerka fólki reyndust eiga rétt á sér þögðu Kárahnjúkamenn og fræðimenn sem höfðu talað fyrir þeirra hönd þunnu hljóði - í kór.

Rökvillurnar sem þú hefur uppi eru til þess fallnar að villa um fyrir fólki sem ekki hefur kynnt sér málið til hlítar, en þjóna engum tilgangi öðrum - þú ert hvorki að leita þér upplýsinga, né heldur ertu að nýta þær upplýsingar sem þú býrð yfir til þess að upplýsa mig eða aðra sem lesa athugasemdirnar frá þér. Vinsamlegast hafðu þinn málflutning málefnalegan og ekki byggðan á rökvillum og útúrsnúningi eða snúðu þér að öðrum vettvangi en blogginu mínu.

Góðar stundir,

 - Jórunn

jórunn, 2.6.2009 kl. 21:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband