Uppskera lyfjabyggs eyðilögð

ORF Líftækni hf. hefur síðustu ár undirbúið viðamikla ræktun á erfðabreyttu lyfjabyggi utandyra, í óvarinni náttúrunni. Ýmsir aðilar hafa sett sig upp á móti ræktuninni, þótt umræðan hafi verið af skornum skammti, fjölmiðlar hafi hvergi nærri staðið sig í upplýsingamiðlun á þessu sviði frekar en öðrum og trúlega hafi ekki nema lítill hluti þjóðarinnar fengið tækifæri til þess að átta sig á því hvað umræðan raunverulega snýst um.

Erfðafræðin, sem erfðatæknin óhjákvæmilega byggir á, er afar ung og óþroskuð fræðigrein. Henni hefur fleytt áfram síðustu ár, en viðfangið er svo gríðarlega stórt og viðamikið (á þeim míkró-skala sem það er) að það sem er vitað er ekki nema agnarlítið brot af þeirri þekkingu sem enn bíður uppgötvunar.

Til dæmis þess, var þangað til á allra síðustu árum stór hluti genamengis mannsins flokkaður af erfðafræðingum sem junk-DNA, eða rusl-DNA á íslensku, og ekki talinn þjóna nokkrum tilgangi eða hafa nein áhrif á uppbyggingu lífverunnar. Þannig voru 95-97% allra gena mannsins talin vera rusl, en á undanförnum árum hafa rannsóknir leitt í ljós að líklega hafi allt DNA, eða a.m.k. langsamlega stærstur hluti þess, áhrif af einhverju tagi þótt það feli ekki í sér beinar fyrirskipanir um uppbyggingu próteina. Hvers konar áhrif ruslið hefur er enn ekki þekkt nema að litlum hluta, en vitað er að þau geta t.a.m. falist í virkjun eða letjun annarra gena og þannig virkað sem kveikirofar, og jafnvel verkstjórar yfir próteinaframleiðslunni og þ.a.l. uppbyggingu lífverunnar!

Rannsóknir ORF á mögulegum áhrifum erfðabreyttu lyfjaplantnanna á náttúru, menn og dýr, hafa verið verulega takmarkaðar að öllu leiti og engar rannsóknir hafa farið fram af hlutlausum aðilum, en RALA og Landbúnaðarháskólinn eiga hlut í fyrirtækinu og raunar bróðurpart í heiðrinum af stofnun þess. HÍ hefur enn ekki komið að rannsóknum fyrir þá (opinberlega a.m.k.), en héðan af gætu rannsóknir þeirra ekki einu sinni talist hlutlausar, því í vor var undirritaður samstarfssamningur milli HÍ og ORF m.a. um samnýtingu vinnuafls, rannsóknaraðstöðu og tækja, sem og aðstoð HÍ við markaðsetningu (sölu) líftæknipróteina ORF.

Reynsla annarra landa ásamt hinum ýmsu rannsóknum hafa hinsvegar leitt í ljós að áhrif erfðabreytinga geta oft verið illfyrirsjáanleg, og afleiðingar þeirra verulega alvarlegar. Lágmarkskrafa áður en erfðabreyttum lífverum (ekki síður þeim sem framleiða mannaprótein og -hormón í fræjum og öðrum hlutum sínum) er sleppt í íslenska náttúru hlýtur því að vera sú að áður fari fram rannsóknir á öllum hugsanlegum áhrifum hennar, framkvæmdar í lokuðu og vernduðu rými, af óháðum aðilum. Reyndar uppfylla orðið fæstir sérfróðir innlendir rannsakendur kröfur um hlutleysi, en það voru ORF sjálfir sem komu því svo fyrir, og þess vegna þeirra vandamál að leysa úr, því þótt sameiginlegir hagsmunir eða samstarf þýði ekki nauðsynlega spillingu þá á slíkt a.m.k. ekkert sameiginlegt með hlutleysi, sem er þó ekkert nema eðlileg lágmarkskrafa.

Eitt af skilyrðum ræktunarinnar sem Umhverfisstofnun setti ORF var ítarlegt og virkt eftirlit með ræktuninni, en það sem eyðilegging akursins hefur nú komið upp um er augljós skortur á umræddu eftirliti. Ég veit ekki hversu mikil eða góð áhrif eyðilegging einnar uppskeru mun hafa, en ég vona innilega að það muni opna umræðuna á ný og vekja fleiri til umhugsunar. Hvað sem verður er líklega a.m.k. hægt að treysta því að þetta muni hafa þau áhrif að eftirliti verði héðan af sinnt betur en útlit er fyrir að hafi verið gert fram að þessu.

 

Fyrri blogg um ORF og ræktun lyfjabyggsins má finna á blogginu mínu hér og hér, en þar er einnig að finna ýmsa linka á síður með frekari upplýsingum um efnið og önnur tengd málefni.


mbl.is Skemmdarverk unnin á tilraunareit í Gunnarsholti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 identicon

Lyfjabyggs segirðu ... var það þá gert af skítahippum? :)

Eyjólfur (IP-tala skráð) 20.8.2009 kl. 10:55

2 Smámynd: jórunn

Eyjólfur, lyfjabygg er samsett nafnorð, úr tveimur no. sem eiga bæði við plöntuna sem um ræðir. Plantan er bygg í þessu tilfelli, og hún framleiðir lyf í fræjum og fleiri hlutum sínum - til þess er henni erfðabreytt. Þess fyrir utan falla þessar byggplöntur undir flokk sem á ensku er kallaður í daglegu tali pharmaceutical plants, þar sem pharmaceutical merkir lyfjaframleiðslu. Ef við myndum yfirfæra það á íslensku gæti það verið lyfjaframleiðsluplöntur eða lyfjaframleiðandi plöntur. Hvort um sig er mjög lýsandi fyrir plöntuna, en afar óþjált, og eðlileg stytting finnst mér vera, án þess að merking sé verulega skert, lyfjaplöntur. Í þessu tilviki er plantan bygg og það eykur því aðeins nákvæmni þegar það er sett inn fyrir -planta.

Skítahippar er samsett orð sem hefur mjög takmarkaða lýsingu umfram bara hippar, þótt það geti mögulega lýst vanþóknun þinni á annað hvort hippum almennt, eða þeim hippum sem umræðir. Í þessu tilviki veistu þó ekki hvort þeir sem eyðilögðu akurinn séu yfirhöfuð hippar (nema þú vitir meira en við hin - ef svo er, endilega deildu með okkur:), svo það sem þú gætir í besta falli verið að segja er það að þú flokkir þá sem gera svona sem hippa, og það skítlega. Hvernig sem merkingin er skilin lýsir orðið samt ekki því sem umræðir, heldur aðeins þinni afstöðu til þess.

Ef ég hef skilið þig rétt, þá spyrðu hvort það það að bæta lyfja- framan við bygg sé eins, að einhverju leiti, og að bæta skíta- framan við hippa, en ég get ekki betur séð en að svarið sé í öllum tilfellum nei... 

jórunn, 20.8.2009 kl. 15:52

3 Smámynd: jórunn

Jón Frímann, ég er forvitin að vita, hvað finnst þér undarlegt við greinina?

Prófessorinn í myndbandinu sem þú bendir á er annars afar faglegur, veltir upp þeim spennandi möguleikum sem erfðabreytingar geta falið í sér, en bendir einmitt um leið á hættuna sem getur stafað af þeim ef ekki er farið að öllu með gát. Reyndar fer hann þó hér um bil ekkert inn á tæknina sjálfa eða takmarkanir hennar sem eru verulegar, enn sem komið er a.m.k. og útlit er fyrir að verði áfram um ókomin ár.

Ástæðan fyrir því að ég segi það er m.a. sú að vitað er að mismunandi gen virka saman á ólíkan hátt. Hvernig þau verka hvort á annað er aftur á móti lítið sem ekkert vitað um og á miðað við þann ógurlega fjölda mögulegra vensla mismunandi gena er verkefnið nánast ótæmandi. Mögulegar samsetningar eru nefnilega fleiri en öll atóm alheimsins (eða sá fjöldi atóma sem áætlað hefur verið að alheimurinn búi yfir). - En hvernig geta þá erfðatæknimenn verið vissir um að lífveran verði nákvæmlega eins og þeir hafa áætlað, gæti einhver spurt. Svarið er að þeir geta það ekki. Þegar utanaðkomandi geni er splæst inn í lífveru er aðeins hægt að áætla hver áhrif þess verða á nýja hýsilinn og hvernig það mun breyta lífverunni. Þannig eru engar erfðabreytingar raunverulega öruggar, og verða það ekki um sinn. Fyrir því eru svo sem fleiri ástæður, en flóknari til útskýringar, svo ég læt þessa nægja í bili.

Að lokum bendi ég þér á þetta blogg hér, sem sýnir fram á að eftirliti með ræktun ORF var greinilega verulega ábótavant.

jórunn, 21.8.2009 kl. 02:41

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Jórunn

Því miður vantar gögn til að styðja margar staðhæfingar þínar, sú alvarlegasta er

"Reynsla annarra landa ásamt hinum ýmsu rannsóknum hafa hinsvegar leitt í ljós að áhrif erfðabreytinga geta oft verið illfyrirsjáanleg, og afleiðingar þeirra verulega alvarlegar."
Þeir sem vilja ítarlegri útskýringar er ráðlegt að fylgja tenglunum hans Jóns Frímans.

Arnar Pálsson, 21.8.2009 kl. 11:30

5 Smámynd: jórunn

Arnar, ég bendi á gömul blogg þar sem má finna einhverja linka (ath líka í athugasemdum við þau), fyrir utan það að þetta er blogg, ekki lokaritgerð í erfðafræði. Allar staðhæfingar mínar eru þrátt fyrir það byggðar á hinum ýmsu gögnum, og ekkert sem ég hef sagt um þetta er úr lausu lofti gripið. Ef þig langar að fræðast í gegnum umræðu þá er ég alveg til í að finna til fleiri viðeigandi linka fyrir þig, en þar sem þú ert í raun að leggja fram neitun á minni staðhæfingu á ég nákvæmlega sömu kröfu á þig, nema öfuga: Sýndu mér og öðrum gögn um það "að áhrif erfðabreytinga geti ekki verið illfyrirsjáanleg, eða afleiðingar þeirra verulega alvarlegar"

 Hér er t.d. linkur sem afsannar þína staðhæfingu margfalt

Jón Frímann, í fyrsta lagi tala ég nánast ekkert um í þessari færslu hvað ORF er að gera, svo það stenst ekki að bloggið sé "full[t] af rangfærslum um [...] það sem ORF er að gera" Þess fyrir utan eru 100 ár ekki langur lífsaldur fyrir fræðigrein, og reyndar var það ekki fyrr en um miðja síðustu öld að James Watson og Francis Crick settu fram tilgátu um rétta uppbyggingu DNA. Og jú, möguleg vensl mismunandi gena eru víst hér um bil óteljandi. Áttaðu þig á því að þótt þú bætir aðeins einu geni við, þá er fjöldinn allur af genum fyrir í frumum lífverunnar, sem geta verkað mismunandi á þetta eina gen, og það verkað ólíkt á þau sem eru fyrir. Vegna þessa hafa erfðafræðingar á tíðum talið sig fullvissa um að vera að ferja einhvern ákveðinn eiginleika inn í uppskrift lífverunnar, en fengið fram einhvern allt annan, fleiri, eða jafnvel engan. Þetta hefur líka gerst þegar vísindamennirnir hafa ekki gert ráð fyrir því að eitt gen getur staðið fyrir fleiri en einn eiginleika.

Til þess að sjá til þess að genið sem splæst er inn í DNA kóða lífveru verði virkt í henni, er í dag almennt settur með kveikjari. Það er samt enn ekki hægt að ráða því hvar nýja genið ásamt kveikjaranum tekur sér stöðu. Kveikjarinn getur þó einnig virkað á þau gen sem honum standa næst þegar hann hefur tekið sér stöðu, en engin ráð eru til þess að ákvarða hvaða gen það verða, og þ.a.l. hvaða genum kviknar á. Það getur þó valdið skelfilegum afleiðingum að virkja röng gen.

Ég hef ekki tíma núna til þess að finna linka fyrir hverri setningu sem ég hripa hér niður, og margt er komið úr bókum og/eða fyrirlestrum erfðafræðinga bæði hérlendis en aðallega erlendis. Svo við höldum þó áfram að mæla með gögnum um ólík sjónarmið í þessum efnum vil ég mæla sérstaklega með bókinni "Seeds of Deception" eftir Jeffrey M. Smith (hægt að lesa um hana hér)
 

jórunn, 21.8.2009 kl. 17:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband